Fara í innihald

Taugadeildin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Taugadeildin var íslensk síð-pönkhljómsveit sem starfaði frá hausti 1980 til hausts 1981. Veturinn 2004 kom hljómsveitin saman á ný.

Hljómsveitin var stofnuð af Árna Daníel Júlíussyni (bassi) og Óskari Þórissyni (söngur). Árni Daníel hafði verið söngvari pönkhljómsveitarinnar Snillinganna sem stofnuð var í Kópavogi 1979 og starfaði veturinn 1979-1980. Óskar hafði starfað með Fræbblunum vorið 1979. Fljótlega gengu þeir Arnór Snorrason gítarleikari, sem verið hafði í Snillingunum og Kormákur Geirharðsson trommuleikari til liðs við Taugadeildina.

Arnór hætti snemma vors 1980 og gekk þá Óðinn Guðbrandsson til liðs við hljómsveitina sem gítarleikari. Einnig gekk hljómborðsleikarinn Þorsteinn Hallgrímsson í Taugadeildina. Hljómsveitin hafði meðal annars notast við trommuheilann Elísabetu I sem var síðan lagður til hliðar. Egill Lárusson gekk svo í hljómsveitina sem söngvari og þannig skipuð var hún lengst af.

Taugadeildin var undir miklum áhrifum frá breskum póst-pönk hljómsveitum eins og Joy Division, Gang of Four og Pop Group.

Taugadeildin lék á mörgum hljómleikum vorið og sumarið 1981 við vaxandi vinsældir, meðal annars á Hótel Borg. Taugadeildin spilaði í Laugardalshöllinni tvisvar sinnum, í síðara skiptið á tónleikunum Annað hljóð í strokkinn, með Þey, Fræbbblunum, Baraflokknum og mörgum fleiri hljómsveitum.

Haustið 1981 kom út fjögurra laga plata með hljómsveitinni á vegum Fálkans. Taugadeildin hætti störfum um svipað leyti. Árni Daníel gekk síðan í Q4U en Óskar stofnaði Mogo Homo ásamt Óðni Guðbrandssyni.

Í september 2023 lauk upptökum á LP-plötu hljómsveitarinnar, „Þegar dauðir rísa upp“. Hún kom svo út á vinyl í maí 2024. Á plötunni voru upphaflegu meðlimirnir Óskar Þórisson, Árni Daníel Júlíusson, Þorsteinn Hallgrímsson og Kormákur Geirharðsson. Egill Viðarsson lék á gítar og hljómborð, Árni Daniel lék líka á hljómborð, og þeir Bjarki Hreinn Viðarsson og Þórir Hermann Óskarsson léku á gítar í nokkrum lögum. Á plötunni eru 14 lög, öll samin á ferli hljómsveitarinnar 1980-1981. Þann 11. júní lék svo Taugadeildin á útgáfutónleikum, ásamt hljómsveitunum Vertigo og Xiupill, í Gym and Tonic sal á Kexhostel í Reykjavík. [1]

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

  1. Upplýsingar frá hljómsveitinni.